ÁGRIP ERINDA -Tónlistarrannsóknir, 15. október 2011

Tónlistarrannsóknir á Íslandi: Vettvangur, aðferðir og nálgun

LAUGARDAGINN 15. OKTÓBER, MENNTAVÍSINDASVIÐ – STAKKAHLÍÐ

10:00-10:40

Dr. Njörður Sigurjónsson: „Gas! Gas! Gas!“: Að ráða í vald(i) hávaða

Í janúar 2009 söfnuðust hópar mótmælenda saman fyrir utan Alþingishúsið og kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar. Mótmælin einkenndust af taktfastri hrynjandi, trommuslátt, dansi, varðeldum, málningu sem slett var á veggi, stefjum og sefjun. Inn í sögu hávaða mótmælanna fléttast einnig trommuhringir á Ingólfstorgi, trommusláttur í Brussel og reykspól mótorhjólamanna á Austurvelli,  hávaðatruflun á útsendingu sjónvarps frá stjórnmálaumræðum á Hótel Borg og hávaðaátök sem snérust um gassöngva, akstursreglugerðir og bensínverð.

Hávaði er því bæði merkingarbært og mikilvægt afl. Þannig segir franski fræðimaðurinn Jacques Attali í bók sinni um pólitísk og efnahagsleg skilyrði hávaða að „ekkert markvert gerist án hávaða“. [1] Attali undirstrikar mikilvægi hljóðheimsins sem valdatækis vekur athygli á því að ofuáhersla vestrænnar þekkingarframleiðslu á augað og hið sýnilega leiði til þess að við getum misskilið heiminn. Að mati Attali er skipulag hávaðar og tónlistar bæði mótandi fyrir skipulag samfélagsins og spegill þess sama félagsskipulags því hún gefur okkur innsýn í stjórnkerfi hávaðans. Og af því að við erum ekki vön að fjalla um hávaðann eða taka eftir honum á meðvitaðan hátt snertir hann okkur dýpra en það sem við erum vön að skýra, skipuleggja og skilja. Hávaðinn vekur hjá okkur líkamleg ónot og vanlíðan sem við ráðum ekki við og stundum ótta sem við bregðumst við á mismunandi hátt.


10:40-11:20

Sigrún Lilja Einarsdóttir: Tónlist og rannsóknaraðferðir félagsvísinda: Dæmi um tónlistarfélagsfræðilega tilviksrannsókn á kórastarfi

Á síðustu áratugum hafa hinar ýmsu fræðigreinar beint sjónum sínum í auknum mæli að tónlist, tónlistarflutningi og félagslegu samhengi tónlistar, einkum innan sálfræði, félagsfræði og menntunarfræði sem og rannsóknir um tengsl tónlistar, heilsu og vellíðunar, tónlistarþerapíu og markvissri notkun tónlistar í ýmsum samfélagsverkefnum. Markmið slíkra rannsókna er ekki að rannsaka tónlistina sem slíka, heldur samfélagið og einstaklingana sem að tónlistarflutningnum koma og er sótt í hefðbundnar félagsvísindalegar aðferðir (megindlegar sem eigindlegar) við öflun gagna.

Í þessu erindi verða rakin tildrög og hönnun á tónlistarfélagsfræðilegri tilviksrannsókn (socio-musical case study) á tónlistarímynd kórfélaga í enskum Bach-kór. Aðferðafræðileg nálgun einkenndist af grundaðri kenningu (grounded theory approach) þar sem gagnaöflun samanstóð af eigindlegum einstaklingsviðtölum, megindlegri spurningakönnun og þátttökuathugun þar sem rannsakandi söng sjálf með téðum kór. Greint verður frá tildrögum og hönnun rannsóknar og mat lagt á hagnýti rannsóknaraðferða í tónlistarfélagsfræðilegu samhengi (kostum, göllum og áskorunum) og framlagi til þverfaglegra rannsókna á tónlistarflutningi.

11:20-12:00

Dr. Helga Rut Guðmundsdóttir: Meðfætt eða áunnið? Um rannsóknir á tónlistarþroska

Í þessu erindi verður farið yfir nokkrar aðferðir til að kanna og mæla þroska og færni á sviði tónlistar. Rætt verður um hvaða þýðingu slíkar rannsóknir hafa fyrir tónlistarmenntun og tónlistaruppeldi.

12:00-12:30 Hlé og hressing

12:30-13:10

Dr. Guðrún Ingimundardóttir: Tónlistarmannfræði: Tónlist í samfélagi manna.

Tónlistarmannfræði er umfangsmikið og spennandi fræðasvið þar sem tónlist er séð sem órjúfanlegur hluti af samfélagi manna. Tónlistin, eins og önnur sköpun mannsins, er afurð menningar hans í tíma og rúmi. Hún er því síbreytileg og óendanlega margslungin frá einum stað til annars og frá einum tíma til annars. Tónlistarmannfræðingar, sem til skamms tíma voru alfarið frá vesturlöndum, höfðu mestan áhuga á að stunda rannsóknir á samfélögum öðrum en þeim sem þeir voru aldir upp við, hvort sem það var í öðru landi eða á öðrum tíma. Það er því ekki að undra að heitið “ethnomusicology” (þjóðtónlistarfræði) sem hollenski fræðimaðurinn Jaap Kunst notaði árið 1950, festist við fræðasviðið, en það nafn hefur verið bitbein fræðimanna s.l. 30 ár. Þegar líða tók á 20. öldina fóru fræðimennirnir að bera sig í meira mæli eftir  spurningum eins og hver er uppruni tónlistar, hvers vegna breytist tónlist í tímans rás, hvert er táknmál tónlistar, hvaða tilgangi þjónar tónlist í samfélagi manna, hefur mismunandi líkamsbygging manna eitthvað að gera með tónlistarstíla, hvaða áhrif hefur hljóðheimur okkar á tónlistarsmekk og tónsköpun, og kallar ákveðin tegund af samfélagi fram ákveðna tegund af tónlist, eða kallar ákveðin tegund af tónlist fram ákveðna samfélagshegðun. Rannsóknarefnin eru allt í kring um okkur og atriði eins og vettvangsrannsóknir, ethnographia, hljóðupptökutækni, nótnaskrift, hljóðfærafræði, sálfræði, fagurfræði eiga sinn eigin kafla í þróunnarsögu fræðigreinarinnar.  Í þessari stuttu kynningu mun tæpt á sögu og þróun fræðanna og nokkrar athyglisverðar hliðargreinar kynntar.

13:10 -13:50

Dr. Árni Heimir Ingólfsson: “Follow My Voice”: Strúktúr og spuni í Mouth’s Cradle eftir Björk

Tónlist Bjarkar Guðmundsdóttur hefur kallað á margs konar túlkanir fræðimanna, m.a. út frá þjóðerni, tengslum við náttúru o.s.frv.  Á geislaplötunni Medúlla (2004) er nær eingöngu stuðst við raddir af ýmsu tagi, en þó eru mörg laganna óvenju flókin og bjóða upp á hljóm- og formgreiningu af ýmsum toga. Í fyrirlestrinum mun ég skýra athyglisverða uppbyggingu lagsins Mouth’s Cradle og hvernig Björk skapar rými fyrir frjálsan og óvæntan spuna innan ramma sem er niðurnjörfaður og margslunginn.

13:50-14:10 Umræður

Comments are closed.