Hvar er tónlistararfurinn? Ráðstefna um íslenska tónmenningu, heimildir og gögn
Stundum heyrist sú skoðun að Íslendinga skorti tónlistararf og engar eða litlar heimildir séu um tónlistarflutning fyrri tíma. Undanfarin ár hefur áhugi á rannsóknum á tónmenningu og tónlistarflutningi þó aukist og uppgötvanir verið gerðar sem varpa ljósi á viðfangsefnið. Ný tækni við skráningu og þróun gagnagrunna hafa gert aðgengi að gögnum auðveldara og rannsakendur af ólíkum fræðasviðum hafa nýtt og birt heimildir sem flestum voru áður ókunnar.
Þann 18. janúar standa Rannsóknarstofa í tónlistarfræðum, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskólinn á Bifröst að ráðstefnu um rannsóknir á íslenskum tónlistararfi. Þar fjalla sex fræðimenn úr ólíkum áttum um íslenska tónmenningu og heimildir um tónlist fyrri tíma.
Ráðstefnan fer fram í sal Háskólans á Bifröst að Hverfisgötu 4–6, 5. hæð, og stendur frá kl. 14.30 – 17.
Boðið verður upp á léttar veitingar á eftir og tækifæri til óformlegs spjalls.
Dagskrá:
Árni Heimir Ingólfsson: Lögin við sálma Kingos í íslenskum söngbókum
Tvö sálmakver danska biskupsins Thomasar Kingos (Åndeligt Sjungekor, 1674/81) voru prentuð á Íslandi undir lok 17. aldar og nutu mikillar hylli hér sem annars staðar. Í erindinu mun ég fjalla um lögin og þó sérstaklega um áreiðanleika nótnanna í prentuðu útgáfunum úr Skálholti í samanburði við dönsku frumútgáfuna. Þá mun ég gera grein fyrir varðveislu laganna í íslenskum handritum allt fram til aldamótanna 1800.
Bjarki Karlsson: Síðbúin formbylting í dægurlagatextum
Bragi, óðfræðivefur hefur á síðasta ári, í samstarfi við fræðimenn og héraðsskjalasöfn, þróast frá því að vera eingöngu textasafn yfir í að vera rannsóknargrunnur sjálfstæðra kvæðasafna. Meðal annars verður kynnt nýtt safn 700 dægurlagatexta frá 1950–2012 og „fyrstu tölur“ úr greiningu á því.
Bjarki Sveinbjörnsson: Heimildir úr sendibréfum
Bréfasöfn sem heimildir í sögu íslenskrar tónmenningar á tuttugustu öld eru smám saman að berast á söfn, eftir því sem skrifarar þeirra falla frá. Þar má finna mikilvægar heimildir um tilurð og uppbyggingu tónlistarlífsins, samskipti manna og stöðu þeirra í tónlistarheiminum. Dregin verða fram nokkur dæmi um slík bréfasöfn, hvar þau eru og hvað finna má í þeim um íslenskt tónlistarlíf.
Móeiður Anna Sigurðardóttir: Afkomendur Árna og íslensku fiðlunnar
Kynning á viðtölum við þrjá afkomendur Árna Egilssonar (1755–1838) sem smíðaði og lék á íslenska fiðlu þá sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands. Viðtölin voru tekin m.a. til að kanna hvort einhverjar frásagnir um Árna lifi í ættinni og hvort eitthvað af listfengi hans hafi gengið í erfðir.
Rósa Þorsteinsdóttir: Alþýðuhljóðfæri á Íslandi
Við leit að heimildum um íslensku fiðluna hafa einnig komið í ljós heimildir um önnur alþýðuhljóðfæri sem smíðuð hafa verið og spilað á hér á síðustu öldum. Einnig hefur orðið ljós þörfin á að líta til margra ólíkra fræðigreina og nýta mismunandi heimildir sem geta gefið vísbendingar um hljóðfæri og hljóðfæraleik á Íslandi.