Kjörsvið: Upplýsingatækni og miðlun við Kennaradeild Menntavísindasviðs
Á síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld, líkt og stjórnvöld annarra landa og ýmis alþjóðasamtök, sett fram stefnu, viðmið og áherslur sem lúta að nauðsynlegri lykilfærni þegna í upplýsinga- og þekkingarsamfélögum nýrrar aldar. Mikilvægt er að efla slíka færni meðal kennara. Á þessu kjörsviði er stefnt að því að kennaranemar þjálfist í að nýta upplýsingatækni og margs konar miðlunaraðferðir við framkvæmd og skipulag skólastarfs, ekki síst með tilliti til upplýsinga- og tæknimenntar sem námsgreinar í grunnskóla, náms og kennslu á greinasviðum allra skólastiga og samþættingar námsgreina.
Náminu er ætlað að auka skilning verðandi kennara á þýðingu upplýsingatækni og miðlunar í menntun og efla tæknilega færni þeirra og læsi, t.d. miðlalæsi og upplýsingalæsi. Markmiðið er einnig að nemendur átti sig á notagildi stafrænnar tækni við upplýsingaleit, sköpun og miðlun þekkingar og hlutverki miðla, hefðbundinna jafnt sem nýmiðla, í þágu samskipta og lýðræðis. Fjallað er um tækni sem nýtist við net- og fjarkennslu og möguleika hennar hvað varðar skólaþróun og sveigjanlega kennsluhætti. Áhersla er lögð á efnisgerð þátttakenda og stefnt að því að þeir nái góðum tökum á helstu þáttum miðlunar og geti leiðbeint verðandi nemendum sínum í verkefnum sem tengjast mynd- og hljóðvinnslu, prentvinnslu eða margmiðlun. Á kjörsviðinu beinist athyglin jafnframt að hlutverki stjórnenda, kennsluráðgjafa og safnkennara hvað varðar upplýsingatækni og miðlun.
Tækni er hagnýtt með fjölbreyttum hætti og leitast við að tengja viðfangsefni fræðilegri umræðu um uppeldi, nám og samfélagsþróun. Áhersla er lögð á samskipti, samvinnu, samfélagsuppbyggingu og gagnrýna umræðu. Hvatt er til að nemendur sýni frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð í verkefnamiðuðu námi, geri vinnu sína aðgengilega og birti hana á ýmsum vettvangi. Námsmat er með fjölbreyttum hætti.
Oddviti kjörsviðs til 2015: Sólveig Jakobsdóttir (soljak@hi.is), s. 525-5568, 663-7561.
Oddviti kjörsviðs frá 2016: Salvör Gissurardóttir (salvor@hi.is) s: 6948596.