Um vefinn

Upplýsingavefur um trúarhreyfingar á Íslandi

Skilgreining:

Verkefnið felst í því að koma á fót upplýsingavef á vegum Trúarbragðafræðistofu Guðfræðistofnunar HÍ um trúarbragðafræði með áherslu á trúarhreyfingar á Íslandi, ritun kennslubóka og greina fyrir alþjóðleg fagtímarit og almenning og þróun námskeiða fyrir trúarbragðafræði í guðfræði, félagsfræði, mannfræði og siðfræði í HÍ. Rannsóknir á trúarlífi Íslendinga hafa leitt í ljós að á þriðja hundrað trúarhreyfinga hafa verið starfandi í landinu frá lokum 19. aldar og eru flestar enn virkar. Um er að ræða hreyfingar sem trúarbragðafræðingar hafa skilgreint sem kirkjur (churches), kirkju- eða trúardeildir (denominations), sértrúarhópa (sects) og einstaklingsmiðlægar aðdáendahreyfingar (cults).

Upplýsingavefurinn yrði í fimm hlutum: (1) Allar trúarhreyfingarnar skráðar þar sem gerð verður grein fyrir uppruna þeirra og sögu, helstu kenningum, siðfræði, starfsháttum og ítarefni. (2) Gerð grein fyrir heimstrúarbrögðunum og tengslum þeirra við Ísland. (3) Orðalisti þar sem trúarhugtök og fræðihugtök í trúarbragðafræðum yrðu þýdd á íslensku og þau skilgreind. (4) Greinasafn með gömlum og nýjum fræðigreinum í trúarbragðafræðum. (5) Stytt ensk útgáfa vefsins fyrir fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.

Á grunni upplýsingavefsins og rannsóknum tengdum honum yrðu svo skrifaðar kennslubækur fyrir grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla um trúarhreyfingar á Íslandi og greinar fyrir blöð og fagtímarit með áherslu á t.d. félagslegar birtingamyndir trúarhreyfinganna, innflytjendur, stöðu kvenna og almenn mannréttindi. Jafnframt yrðu þróuð námskeið fyrir Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ um nýtrúarhreyfingar, endatímakenningar, trú og mannréttindi, trú og stjórnmál og trú, listir og menningu þar sem viðkomandi bækur og greinar yrðu notaðar.

Nemendur í meistaranámi og doktorsnámi á helstu sviðum trúarbragðafræðanna myndu koma að uppsetningu upplýsingavefsins og því efni sem þar yrði birt og mun það byggja á rannsóknarnámi þeirra. Uppsetning vefsins með öllum grunnupplýsingum á íslensku mun taka eitt ár en nauðsynlegt verður að halda honum við og uppfæra með hliðsjón af frekari rannsóknum á komandi árum. Þrjár kennslubækur verða skrifaðar næstu tvö árin um trúarhreyfingar á Íslandi, ein fyrir grunnskóla, önnur fyrir framhaldsskóla og sú þriðja fyrir háskóla. Á komandi árum verða svo fleiri kennslubækur skrifaðar sem sömuleiðis munu nýta upplýsingavefinn og rannsóknir sem tengjast honum. Í tengslum við verkefnið verða skipulögð málþing um trúarbrögð og mannréttindi þar sem samstarfsaðilar verkefnisins taka þátt.

Verkefnið samræmist m.a. þeim ákvæðum í stefnu HÍ þar sem lögð er áhersla á að efla meistara- og doktorsnám, nýsköpun og tengsl við innlendar og alþjóðlegar rannsóknarstofnanir á þverfaglegu sviði, bæta aðbúnað til rannsókna og kennslu með aukinni notkun upplýsingatækni og auka útgáfustarfsemi með ekki síst birtingum greina í virtum alþjóðlegum tímaritum. Markmiðið er að stuðla að aukinni þekkingu í trúarbragðafræðum með rannsóknum og upplýsingamiðlun, virðingu fyrir almennum mannréttindum, umburðarlyndi og samræðu milli ólíkra trúarhreyfinga og trúarbragða. Upplýsingavefurinn myndi gagnast nemendum og kennurum á öllum stigum menntakerfisins, fræðimönnum við rannsóknarvinnu í trúarbragðafræðum, almenningi, fjölmiðlum, stofnunum og ríkisvaldinu.