Vottar Jehóva

RussellErlend heiti

Jehovah’s Witnesses

Watchtower Bible and Tract Society

Kenningar

Vottar Jehóva eiga rætur að rekja til aðventistahreyfingarinnar í Bandaríkjunum á nítjándu öld og eru því skilgreindir sem aðventískur trúarhópur af fræðimönnum á borð við Michael Neiiendam[1] og J. Gordon Melton,[2] enda þótt sjálfir aðgreini þeir sig jafnan frá aðventistum.[3]

Vottar Jehóva trúa því að Biblían sé óskeikult orð Guðs, enda innblásin af honum. Ekki geti þó hver sem er skilið hana, því að Guð einn geti túlkað hana rétt. Nauðsynlegt sé því að lúta leiðsögn trúfélags Votta Jehóva, því Guð noti það eitt til þess að veita mönnum réttan skilning á Biblíunni og koma vilja sínum á framfæri við þá.[4]

Nafn Guðs er sagt Jehóva og verða menn að nota það, vilji þeir gefast honum. Vottar Jehóva trúa því, að Guð sé persóna í andalíkama og hafi aðsetursstað á himnum.[5] Þess vegna hafna þeir þrenningunni og segja þann Guð óskiljanlegan, sem geti verið í senn þrjár persónur, faðir, sonur og heilagur andi. Í staðinn segja Vottar Jehóva soninn vera Mikael erkiengil og heilagan anda ópersónulegan starfskraft Guðs.[6]

Upphafsmaður trúfélags Votta Jehóva var kaupsýslumaðurinn Charles Taze Russell (1852-1916), sem 18 ára gamall kom á fót litlum leshóp til að rannsaka kenningar Biblíunnar um Jesúm Krist, endurkomu hans og ástand sálarinnar eftir dauðann. Russell hafði nokkru áður snúið baki við kalvínskri trúararfleifð foreldra sinna, þar sem hann fékk ekki séð hvernig það gæti samrýmst gæsku Guðs að ætla fyrirfram stórum hluta mannkynsins ‚eilífri kvalavist í helvíti‘, en forútvalningarkenning kalvínista gengur út á það, að fyrirfram sé ákveðið hverjir verði hólpnir og hverjir glatist. Þess í stað sannfærðist Russell um svefn sálarinnar við andlátið og sagði glötunina aðeins felast í útslokknun tilvistar, enda væri sálin ekki eilíf, en þá túlkun á textum Biblíunnar sótti hann til hóps aðventista, sem hann fylgdi um skeið og nefndist síðari aðventistar (Second Adventists).[7]

Síðari aðventistar kölluðust þeir fylgismenn vakningarpredikarans Williams Miller (1782-1842), sem aðhylltust enn helstu kenningar hans, þrátt fyrir að spádómur hans um endurkomu Jesú Krists árið 1844 hefði ekki gengið eftir. Enda þótt Miller viðurkenndi sjálfur mistök sín og sneri baki við útreikningum sínum, töldu margir þá enn rétta og sögðust aðeins hafa vænst rangra hluta á réttum tíma. Sumir þeirra ákváðu þó að leggja slíkar tímasetningar framvegis á hilluna, en aðrir héldu uppteknum hætti og settu hvað eftir annað fram nýjar tímasetningar, sem þeir töldu sig hafa fengið úr Biblíunni. Næstu árin aðgreindust aðventistarnir í fjölda sjálfstæðra hópa og eru Sjöunda dags aðventistar þeirra þekktastir, en trúfélag þeirra, sem var formlega skipulagt sem kirkja árið 1863, sneri þegar baki við frekari tímasetningum. Þegar spár hinna aðventistahópanna rættust ekki, liðu þeir flestir undir lok, en sumum tókst að halda velli með því að endurtúlka útreikningana.[8]

Rutherford leit svo á, að um helstu atburði samtíðar sinnar hefði verið spáð í Biblíunni og sagði Opinberunarbókina og önnur spádómsrit hennar fjalla að mestu um sögu trúfélags Votta Jehóva á tuttugustu öldinni.[9] Árið 1918 hóf hann boðunarherferð undir slagorðinu: „Heimsendir er kominn, milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja.“[10] Tveim árum síðar sendi hann frá sér bókina Millions Now Living Will Never Die, sem staðhæfði meðal annars, að hebresku ættfeðurnir Abraham, Ísak og Jakob yrðu reistir sýnilega upp frá dauðum árið 1925 í upphafi þúsund ára ríkisins, en sú bók var meðal annars gefin út nokkuð stytt á íslensku nokkrum árum síðar.[11] Það varð trúfélaginu mikið áfall þegar væntingarnar um heimsendi 1925 brugðust og hét Rutherford því að setja aldrei framar fram svo nákvæma tímasetningu um hann.[12] Engu að síður lét hann reisa glæsivillu í San Diego handa ættfeðrunum, þegar þeir yrðu reistir upp frá dauðum,[13] en hún var seld í kyrrþey nokkrum árum eftir dauða hans.[14] Rutherford leit einnig svo á, að síðari heimsstyrjöldin væri upphaf orrustunnar við Harmageddon og að nazistar yrðu ekki lagðir að velli fyrr en þúsund ára ríkið yrði stofnsett.[15]

Skipulag og starfsemi

Trúboð meðlima trúfélagsins hús úr húsi og andstaða þeirra við t.d. fánahyllingu í skólum, framhaldsmenntun, bólusetningum, kosningum, herþjónustu og samfélagsþjónustu í stað hennar olli einnig alvarlegri togstreitu og voru þúsundir þeirra fangelsaðir til lengri eða skemmri tíma. Talið er, að málaferlin, sem fylgdu í kjölfarið, hafi átt stóran þátt í að móta löggjöf Bandaríkjanna um trúfrelsi og mannréttindi.[16] Vottar Jehóva hafa þó átt undir högg að sækja í fleiri löndum vegna starfsaðferða sinna og sjónarmiða. Þannig var starfsemi trúfélagsins bönnuð á valdatíma nazista í Þýzkalandi og fjölmörgum meðlimum þess varpað í þrælkunarbúðir. Kommúnistar settu ýmist starfsemi þess skorður eða þeir hreinlega bönnuðu trúfélagið í valdatíð sinni, en í flestum íslömskum ríkjum er starfsemi þess enn óheimil. Enn í dag er trúfélagið jafnvel undir smásjá stjórnvalda víða um Evrópu, t.d. í Frakklandi þar sem það hefur verið skilgreint sem ‚hættulegur sértrúarsöfnuðir‘ af ríkisvaldinu og ekki fengið fulla viðurkenningu sem löggilt trúfélag.[17]

Vottar Jehóva trúa því, að staurdauði Jesú Krists hafi veitt þeim annað tækifæri til þess að verða fullkomnir í þúsund ára ríkinu, sem þeir segja, að sé þúsund ára langur dómsdagur undir stjórn Mikael erkiengils, engla hans og 144.000 manna hópsins. Þar verði allir þeir reistir upp frá dauðum, sem annað hvort fóru á mis við fagnaðarerindið um ríki Jehóva Guðs eða dóu sem trúfastir Vottar Jehóva áður en að endir hins illa heimsskipulags kom í orrustunni við Harmageddon. Hinir upprisnu muni þá slást í hóp með þeim Vottum Jehóva, sem komust lífs af er Mikael erkiengill og englar hans tóku af lífi alla þá, sem ekki reyndust trúfastir Jehóva Guði í orrustunni við Harmageddon. Þeir sem létu þannig lífið eru að mati Votta Jehóva glataðir um alla eilífð eins og Adam, Eva og aðrir forhertir syndarar sögunnar, því að þau verði aldrei reist upp frá dauðum. Vottar Jehóva segja, að allir aðrir fái hins vegar sama tækifærið til þess að læra sannleikann og tileinka sér hann á þúsund ára langa dómsdeginum. Þeir verði þó aðeins dæmdir fyrir þær syndir, sem þeir drýgja á sjálfum dómsdeginum, því hinir upprisnu hafi verið leystir undan þeim syndum, sem þeir drýgðu fyrir tilkomu þess, þegar þeir dóu á sínum tíma. Vottar Jehóva segja, að það komi ekki í ljós fyrr en í lok þúsund ára ríkisins, hverjir hljóti eilíft líf í paradís á jörð, en þá verði þeir teknir af lífi, sem ekki náðu marki fullkomnunarinnar. Þess vegna neita Vottar Jehóva því, að þeir séu frelsaðir, enda eigi tíminn eftir að leiða það í ljós.[18]

Vottar Jehóva trúa því, að Guð hafi skipt öllum sannkristnum mönnum í tvo hópa. Í öðrum hópnum séu 144.000 manns, sem valdir hafi verið frá tímum postulanna til ársins 1935, en þeir eru sagðir hinir einu, sem komist til himna og fái að ríkja með Mikael erkiengli og englum hans. Að mati Votta Jehóva geta þeir einir, sem tilheyra 144.000 manna hópinum, því talist endurfæddir og nái hinn nýji sáttmáli Jesú Krists aðeins til þeirra, enda megi þeir einir neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni um staurdauða hans. Vottar Jehóva líta svo á, að nú séu aðeins um 8661 manns á lífi af þessum hópi, því það er sá fjöldi, sem neytir brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni. Hinn hópurinn sé hinn svonefndi ‚mikli múgur‘ Votta Jehóva, sem annað hvort gekk til liðs við trúfélagið eftir 1935 eða verður reistur upp frá dauðum í þúsund ára ríkinu. Þeir, sem tilheyra honum, segjast aldrei munu fara til himna heldur eigi þeir þess kost að fá að dvelja að eilífu í paradís á jörð. Þeir segjast ekki hafa þörf fyrir að endurfæðast, kalla Jehóva Guð afa sinn í stað föður og neita því, að nýji sáttmálinn nái til þeirra. Þegar hinir eftirlifandi af 144.000 manna hópnum neyta brauðsins og vínsins á minningarathöfninni, taka þeir, sem tilheyra múginum mikla, því aðeins þátt sem áhorfendur.[19]

Vottar Jehóva trúa því, að heimsendir, endir þessa illa heimsskipulags, geti orðið þá og þegar, enda hafi Jesús Kristur komið aftur árið 1914 og tekið við völdum sem konungur jarðarinnar. Hann hafi þá varpað djöflinum og englum hans til jarðarinnar með þeirri afleiðingu, að fyrri heimsstyrjöldin braust út, en síðan útvalið trúfélag Votta Jehóva sem talsmann Jehóva Guðs þann stutta tíma, sem eftir væri.[20]

Vottar Jehóva segja bænnfæringar nauðsynlegar til þess að halda söfnuðinum hreinum og vernda hann frá óæskilegum áhrifum. Auk þess geti bannfæring reynst eina lausnin til þess að fá hinn brotlega til að iðrast gjörða sinna, því að þegar hann glati sambandinu við sína nánustu, finni hann loks hversu alvarlegt brot hans hafi verið.[21] Í handbók öldunga trúfélags Votta Jehóva, Pay Attention to Yourselves and to All the Flock, segir, að þeir, sem sýni iðrun sína í verki, geti átt þess kost að snúa aftur og verða teknir í sátt. Þó megi öldungarnir ekki fara sér að neinu óðslega, þegar þeir taka aftur við bannfærðum safnaðarmeðlimum, því að tryggja verði, að iðrun þeirra sé einlæg og sé ekki til þess eins gerð að endurnýja félagstengslin.[22]

Gagnrýnendur bannfæringanna benda aftur á móti á, að þær valdi oftar en ekki ómældum erfiðleikum í samskiptum fjölskyldumeðlima og teljist fremur flótti frá vandamálum en lausn á þeim. Auk þess valdi hinar sífelldu tilfæringar á inntaki bannfæringanna því, að samskipti hinna bannfærðu við ættingjana innan trúfélagsins taki einna helst á sig mynd jójós, þar sem þeir ýmist mega engin samskipti við þá hafa eða aðeins takmörkuð.[23] Að vísu segja leiðtogar Votta Jehóva, að margir hinna bannfærðu sjái að sér og séu því teknir í sátt á ný,[24] en gagnrýnendurnir svara því til, að þeir séu enn fleiri, sem geri það ekki. Þeir sem snúi hins vegar aftur, geri það oftar en ekki vegna fjölskyldna sinna og vina innan trúfélagsins, en margir vilji allt til þess vinna að geta tekið upp óþvingað samband við börn sín og foreldra á ný, jafnvel þótt þeir verði að snúa baki við sannfæringu sinni. Bannfæringarnar séu því fyrst og fremst tæki trúfélagsins til að viðhalda félagslegu taumhaldi innan þess.[25]

Vottar Jehóva líta svo á, að Biblían banni blóðgjafir undir öllum kringumstæðum og nefna nokkra ritningartexta máli sínu til stuðnings (I. Mós. 9:4, III. Mós. 3:17, 7:26-27, 17:10-14, Post. 15:20, 29). Þeir segja það engu máli skipta þótt ritningartextarnir tali aðeins gegn neyslu blóðs, því að þar sem hægt sé að þiggja næringu í æð, jafngildi blóðgjafir neyslu blóðs.[26] Blóðgjöf er svo alvarleg að þeirra mati, að sá sem þiggur hana, er sagður fyrir vikið geta glatað möguleikanum til eilífs lífs.[27] Mörg dæmi eru nefnd um það í ritum Votta Jehóva hversu hættulegar blóðgjafir geti reynst, en þar hefur meðal annars komið fram, að stelsýki og afbrigðileg kynhneigð blóðgjafanna geti fylgt blóði þeirra og haft áhrif á blóðþegana.[28] Þess vegna beri öllum að sniðganga blóðgjafir jafnvel þótt lífið liggi við, en í ritum trúfélagsins hafa dæmi verið tekin öðrum til eftirbreytni um unglinga, sem létust eftir að þeir höfnuðu öllum blóðgjöfum og reyndust þannig trúfastir allt til enda.[29]

Margir gagnrýnenda trúfélags Votta Jehóva halda því fram, að það geti ekki talist kristið. Herra Sigurbjörn Einarsson, biskup íslensku þjóðkirkjunnar, gaf t.d. út ritið Vottar Jehóva: Aðvörun! árið 1962, þar sem hann sagði þá ekki vera kristna,[30] en undir það hafa margir guðfræðingar og prestar tekið á opinberum vettvangi.[31] Talsmenn margra annarra kristinna trúfélaga á Íslandi hafa einnig séð ástæðu til að vara við trúfélagi Votta Jehóva jafnt innan sinna raða sem opinberlega.[32] Þannig gaf t.d. Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður trúfélagsins Krossins, út bókina Frelsa oss frá illu árið 1992, þar sem hann gagnrýndi kenningar Votta Jehóva og Mormóna harðlega og sagði þá villutrúarmenn.[33] Flestar kenningar Votta Jehóva eru yfirleitt tilgreindar, þegar rök eru færð fyrir því, að þeir geti ekki talist kristnir, en skilningur þeirra á Guði og Jesú Kristi vegur þar þó jafnan þyngst. Þar sem þeir hafna þrenningunni, en boða engu að síður trú á tvo aðgreinda guði, Jehóva sem almáttugan Guð og Jesúm sem máttugan guð, hafa þeir verið sakaðir um fleirgyðistrú.[34]

Sjálfir gera Vottar Jehóva greinarmun á kristinni trú og kristindóminum. Aðeins Vottar Jehóva séu sannkristnir, en alla aðra trúarhópa, sem kenna sig við kristna trú, kalla þeir kristindóminn og segja þá þjóna djöflinum.[35] Rutherford kallaði rómversk-kaþólsku kirkjuna og mótmælendur oftsinnis „skipulag djöfulsins“ og sagði trúarbrögð þeirra fölsk,[36] en það sjónarmið einkennir enn rit trúfélagsins. Þannig segir t.d. í ritinu Hvers krefst Guð af okkur?, sem gefið var út af trúfélagi Votta Jehóva árið 1997, að þeir, sem aðhyllast fölsk trúarbrögð, þjóni í raun Satan, Guði þessa heims.[37]

Árið 2000 voru ‚boðberar‘ trúfélagsins rúmar 6 milljónir um allan heim, en það er sá fjöldi skírðra Votta Jehóva, sem er virkur í trúboðsstarfinu hús úr húsi og skilar inn trúboðsskýrslum. Aðsóknin á minningarhátíðina var hins vegar tæpar 14,9 milljónir,[38] en þar bætast meðal annars við óskírð börn Votta Jehóva og aðrir áhugasamir einstaklingar, sem gætu tekið skírn síðar meir. Þar sem þeir einir eru skírðir, sem taldir eru hafa tileinkað sér kenningar og lífsstíl Votta Jehóva nægilega vel, liggur beinast við að meta áhrif trúfélagsins út frá aðsókninni á minningarhátíðina.

Hjá Hagstofu Íslands voru 644 skráðir í trúfélag Votta Jehóva í árslok 2000 og eru þar meðtalin óskírð börn mæðra innan þess.[39] Sjálfir segjast Vottar Jehóva aðeins vera 324, en alls sóttu 518 minningarhátíðina þeirra á landinu.[40] Skýringin á þessum mun á skráningu Hagstofunnar og aðsókninni á minningarhátíðina gæti verið sú, að ekki hafi allir haft fyrir því að skrá sig úr trúfélaginu, sem sagt hafi skilið við það á undanförnum árum. Auk þess gætu einhverjir hafa skráð sig í það hjá Hagstofunni, sem eru því hliðhollir enda þótt þeir hafi ekki gengið formlega til liðs við það og stundi samkomur þess.

Nokkur gagnleg rit um Votta Jehóva

Bergman, Jerry R.: Jehovah’s Witnesses. A Comprehensive and Selectively Annotated Bibliography. Greenwood Press. Westport. 1999.

Bergman, Jerry R.: Jehovah´s Witnesses and the Problem of Mental Illness. Witness Inc. Clayton. 1992.

Bjarni Randver Sigurvinsson: „Vottar Jehóva og blóðgjafir.“ Orðið. 1995. Bls. 98-125.

Bowman, Robert M.: Jehovah´s Witnesses, Jesus Christ & the Gospel of John. Baker Book House. Grand Rapids. 1989.

Bowman, Robert M.: Understanding Jehovah´s Witnesses. Why They Read the Bible the Way They Do. Baker Book House. Grand Rapids. 1991.

Bowman, Robert M.: Why You Should Believe in the Trinity. An Answer to Jehovah´s Witnesses. Baker Book House. Grand Rapids. 1989.

Franz, Raymond: Crisis of Conscience. Commentary Press. Atlanta. 1983.

Furuli, Rolf: The Role of Theology and Bias in Bible Translation. With a Special Look at the New World Translation of Jehovah’s Witnesses. Elihu Books. Huntington Beach. 1999.

Jehovah´s Witnesses. Proclaimers of God´s Kingdom. Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1993.

Jonsson, Carl Olof: The Gentile Times Reconsidered. Chronology and Christ’s Return. Commentary Press. Atlanta. [1983.] 1998.

Mettinger, Tryggve N.D.: In Search of God. The Meaning and Message of the Everalsting Names. Fortress Press. Philadelphia. 1988.

Penton, M. James: Apocalypse Delayed. The Story of Jehovah´s Witnesses. University of Toronto Press. Toronto. 1985.

Reasoning from the Scriptures. Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1989.

Stafford, Greg: Jehovah’s Witnesses Defended. An Answer to Scholars and Critics. Elihu Books. Huntington Beach. 1998.

Þú getur lifað að eilífu í Paradís á jörð. Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1984.


[1] Neiiendam, Michael: Frikirker og sekter. G.E.C. Gads Forlag. København. 1927. Bls. 310.

[2] Melton, J. Gordon: Encyclopedia of American Religion. Gale. Detroit. [1978.] 1996. Bls. 114-115.

[3] Zion’s Watch Tower. Október 1881. Reprints bls. 288.

[4] Watchtower, The. 1. október 1967. Bls. 587.; Sama. 15. febrúar 1981. Bls. 19.; Sama. Bls. 15. ágúst 1988. Bls. 28-29.

[5] Insight on the Scriptures. Volume I. Aaron-Jehoshua. Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1988. Bls. 969.; Watchtower, The. 15. febrúar 1981. Bls. 6.; Þú getur lifað að eilífu í Paradís á jörð. Bls. 36-37.

[6] Þú getur lifað að eilífu í Paradís á jörð. Bls. 40.; Ættum við að trúa á þrenninguna? Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1991.

[7] Jonsson, Carl Olof: The Gentile Times Reconsidered. Chronology and Christ’s Return. Commentary Press. Atlanta. [1983.] 1998. Bls. 47-49.; Zion’s Watch Tower. 15. júlí 1906. Reprints bls. 3821.

[8] Jonsson, C.O.: The Gentile Times Reconsidered. Bls. 39-43.

[9] Rutherford, J.F.: Light. Book One. Watch Tower Bible and Tract Society. New York. 1930. Bls. 72-73, 105-227, 249-251.; Rutherford, J.F.: Light. Book Two. Watch Tower Bible and Tract Society. New York. 1930. Bls. 19-60.

[10] Varðturninn. 1. júlí 1984. Bls. 30.

[11] Rutherford, J.F.: Miljónir nú lifandi manna munu aldrei deyja. International Bible Students Association. New York. 1920.

[12] Rutherford, J.F.: Vindication. Book One. Watch Tower Bible and Tract Society. New York. 1931. Bls. 146, 338-339.

[13] Rutherford, J.F.: Salvation. Watch Tower Bible and Tract Society. New York. 1929. Bls. 311.

[14] Gruss, Edmond Charles: The Jehovah´s Witnesses and Prophetic Speculation. Presbyterian and Reformed Publishing Co. Phillipsburg. 1975. Bls. 88.

[15] Consolation. 29. október 1941. Bls. 11.; Watchtower, The. 15. desember 1941. Bls. 372 & 377.

[16] Bergman, J.: Jehovah’s Witnesses. Bls. 1-2.

[17] Sjá http://cftf.com/french/Les_Sectes_en_France/index.html.

[18] Þú getur lifað að eilífu í Paradís á jörð. Bls. 155, 163-165, 171, 175-183.

[19] Watchtower, The. 1. janúar 1988. Bls. 11.; Sama. 1. febrúar 1988. Bls. 30-31.; Sama. 1. apríl 1988. Bls. 18.; Varðturninn. 1. janúar 2001. Bls. 21.; Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans. Watchtower Bible and Tract Society. New York. [F: 1986.] 1988.

[20] Þú getur lifað að eilífu í Paradís á jörð. Bls. 21-22, 193-195, 255.

[21] Watchtower, The. 15. apríl 1988. Bls. 26-31.

[22] Pay Attention to Yourselves and to All the Flock. Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1991. Bls. 121, 128-131. ­– Þessa handbók öldunga Votta Jehóva er að finna á netinu á www.hedning.no/hedning/jv/index.htm. Ef handbókin verður færð til á netinu, er alltaf hægt að finna hana aftur með því fara inn á www.altavista.com.

[23] Reed, David A.: „Family life on a yo-yo string.“ Comments from the Friends. Nr. 1. 1989. Bls. 1, 3-4.

[24] Watchtower, The. 1. nóvember 1998. Bls. 11.

[25] Bergman, Jerry R.: Jehovah´s Witnesses and the Problem of Mental Illness. Witness Inc. Clayton. 1992. Bls. 117-130, 134-137.

[26] Þú getur lifað að eilífu í Paradís á jörð. Bls. 216.

[27] Blood, Medicine and the Law of God. Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1961. Bls. 54-55.; Vaknið! Október-desember 1994. Bls. 5.; Awake! 22. maí 1951. Bls. 5.

[28] Watchtower, The. 1. september 1961. Bls. 564.; Sama. 15. maí 1962. Bls. 302.; Sama. 1. september 1975. Bls. 519.; Awake! 8. júlí 1969. Bls. 30.

[29] Vaknið! Október-desember 1994. Bls. 1-8.; Watchtower, The. 1. september 1971. Bls. 531-532.; Sama. 1. febrúar 1996. Bls. 15.

[30] Sigurbjörn Einarsson: Vottar Jehóva. Aðvörun. [Án útg. Reykjavík. 1962.]

[31] „Vottar Jehóva eru hvergi álitnir kristnir innan kirkjunnar – segir sr. Birgir Snæbjörnsson.“ Dagur. 17. mars 1988. Bls. 7.; „Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson í viðtali við SUNNLENSKA um Votta Jehóva: Þeir eru falsspámenn.“ Sunnlenska. 6. júlí 1995.

[32] Það sést meðal annars af eftirtöldum greinum, sem birst hafa í tveim af helstu kristilegu tímaritum landsins, Aftureldingu og Bjarma. Rasmussen, E.: „Eru Vottar Jehóva sannir eða falskir spámenn?“ Bls. 28-31.; Gunnar J. Gunnarsson: „Varizt Votta Jehova.“ Bjarmi. Apríl 1975. Bls. 12-13.; Aiken, Jim: „Ég kynntist Vottum Jehóva.“ Bjarmi. Maí-júní 1981. Bls. 1, 12-14.

[33] Gunnar Þorsteinsson: Frelsa oss frá illu. Umfjöllun um Votta Jehóva og Mormóna. Ax forlag. [Kópavogur. 1992.]

[34] Sigurbjörn Einarsson: „Svar til Votta Jehóva.“ Morgunblaðið. 30. mars 1962. Bls. 6.

[35] Christendom or Christianity – Which One Is “the Light of the World”? Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1955.

[36] Rutherford, J.F.: Frelsun. Bls. 249.

[37] Hvers krefst Guð af okkur? Watchtower Bible and Tract Society. New York. 1997. Bls. 8.

[38] Varðturninn. 1. janúar 2001. Bls. 21.

[39] Hagtíðindi. Desember 2000. Bls. 726.

[40] Varðturninn. 1. janúar 2001. Bls. 19. – Þetta er nokkur fækkun frá árinu 1999 en þá voru boðberarnir skráðir 328 og aðsóknin á minningarhátíðina 552. (Varðturninn. 1. janúar 2000. Bls. 18.)