Falun Gong

-Kenningar og helgisiðir

-Stjórn, skipulag

-Alþjóðleg tengsl

-Staða og starfsemi á Íslandi

Kenningar og helgisiðir

Falun Gong á rætur að rekja til kínversk Mahiana búddhisma og Taóisma (sjá nánar xx)

Hugtakið ‚Falun‘ merkir ‚lögmálshjól‘ (law wheel) og hugtakið ‚Gong‘ ‚orkuöflun með iðkun‘ (the cultivation of energy). Falun Gong hefur verið þýtt sem „iðkun lögmálshjólsins“ (the practice of the wheel of the Dharma), en í því fellst að orkuöflun með iðkuninni er sögð vera í samræmi við grundvallarlögmál heimsins.[1]

Falun Gong iðkun einkennist af fimm hægum líkamsæfingum, sem eiga rætur að rekja til vinsællar fornrar kínverskrar leikfimi er nefnist qigong, enda þótt útfærslan sé nokkur önnur en tíðkast hefur. Hugtakið ‚qigong‘ hefur verið þýtt á íslensku sem ‚leiðin að lífsorkunni í alheimnum‘ en allmargir landskunnir Íslendingar hafa lagt stund á hana til fjölda ára í þeirri trú að hún auki bæði andlegt úthald og efli einbeitingu, þ.m.t. Björn Bjarnason m.a. meðan hann starfaði sem menntamálaráðherra og síðar dóms- og kirkjumálaráðherra.

Stofnandi Falun Gong hreyfingarinnar og andlegur leiðtogi hennar er Kínverjinn Li Hongzhi, sem fæddist árið 1951 í norð-austurhluta Kína. Sjálfur segist Li vera fæddur 13. maí, sama dag og Siddhartha Gautama, þ.e. Búddha, fæddist, en kínversk stjórnvöld segja fæðingardag hans vera 7. júlí. Á ljósmyndum af Li Hongzhi má oft sjá hann í ýmsum búddhastellingum enda er hann sagður hafa hlotið uppljómun og vera eini andlegi meistarinn nú á dögum sem geti frelsað manninn. Li segist snemma hafa helgað sig Falun Gong iðkun og sniðgengið menntaskóla gagngert til að verða ekki afvegaleiddur af þeim mennsku ranghugmyndum sem tröllriði menntakerfinu.

Li Hongzhi segir að qigong eigi rætur að rekja til forsögulegra menningarsamfélaga og hafi skilað sér til nútímans fyrir tilstilli ýmissa skóla búddha, þ.e. uppljómaðra einstaklinga, sem hafi miðlað því áfram til útvaldra lærisveina sinna. Það qigong, sem Li boðar, er sagt runnið frá einum slíkum leynilegum búddhaskóla, en hann segist hafa fengið leyfi frá meistara sínum til að opinbera það í aðlöguðu formi almenningi til velfarnaðar og sáluhjálpar. Í rauninni getur enginn orðið hólpinn nema því aðeins að hann iðki qigong nákvæmlega eftir því formi sem Li Hongzhi útlistar Falun Gong æfingarnar og hugmyndafræðina að baki þeim.

Hugmyndafræðin að baki æfingunum er ótvírætt grundvölluð á kenningum austrænna trúarbragða um karmalögmálið, endurholdgun og mikilvægi uppljómunar. Markmiðið er að vinna bug á karmanu og efla supernormal hæfileika iðkenda og lífsorku þeirra til að þeir verði bæði heilbrigðari og gáfaðri og geti losnað úr hringrás endurholdgana. Um leið og iðkandinn öðlast nægrar lífsorku og náð nægum siðferðilegum styrk (xinxing), hlýtur hann uppljómun og líkami hans fullkomnun. Sjúkdómar eru þá sagðir hverfa vegna þess að orkan í líkamanum lagfæri allt sem hún nái til og siðferðisstyrkurinn eyði karmanu.

Þetta gerist með þeim hætti að Li Hongzhi kemur fyrir lögmálshjóli (falun) í líkama, nánar til tekið í kviðarholi, þess sem byrjar að ástunda æfingarnar fimm, en við iðkunina dregur lögmálshjólið að lífsorku sem hreinsar líkamann af hvers kyns óhreinindum. Tákn lögmálshjólsins er stór hakakross sem snýst, en umhverfis hann eru fjórir aðrir litlir hakakrossar sem snúast einnig ásamt fjórum jin og jang táknum. Snúningur lögmálshjólsins dregur að orku eða gong-kraft frá alheiminum, en jin og jang táknin standa fyrir vetrarbrautirnar sem eru víðsvegar um allan alheiminn.

Li Hongzhi segist geta komið þessu lögmálshjóli fyrir í líkama Falun Gong iðkenda þó svo að þeir hafi aldrei séð hann og séu víðsfjærri dvalarstað hans. Það geri hann í lögmálslíkama sínum (fashen), sem geri honum kleift að ferðast um í öðrum víddum, sem ekkert mannlegt auga fái greint. Þeir sem iðki Falun Gong eru sagðir njóta verndar hans þar sem hann fylgi þeim hverjum og einum í lögmálslíkama sínum þar til þeir hljóti sjálfir uppljómun.

Kröfur eru gerðar um að iðkendur helgi sig Falun Gong eingöngu enda bjóði það hættunni heim að leita samtímis á önnur mið. Li Hongzhi segir að illa fari fyrir þeim, sem hafi eitt sinn kynnst Falun Gong en síðan tekið að iðka einhverjar aðrar útfærslur af qigong eða jafnvel breyta þeim æfingum, sem hann hafi opinberað. Iðkendur Falun Gong eru meira að segja varaðir við því að kyrja að hætti búddhista eftir að hafa kynnst hugmyndafræði hreyfingarinnar enda verði þeir að helga sig henni algjörlega ef þeir ætli sér að verða hólpnir. Enginn geti nefnilega orðið hólpinn nema því aðeins með því að fylgja Li Hongzhi og fara eftir fyrirmælum hans. Það eina sem má kyrja er nafn meistarans Lis Hongzhi.

Stjórn, skipulag og starfsemi

Falun Gong hreyfingin vakti fyrst heimsathygli árið 1999 þegar kínversk stjórnvöld ákváðu að banna hana á þeirri forsendu að um væri að ræða fjölmennan strangtrúarhóp (cult) sem ógnaði öryggi ríkisins og tóku að senda þúsundir fylgismanna í fangelsi og þrælkunarbúðir, oft án dóms og laga. Þegar svo íslensk stjórnvöld ákváðu að takmarka komu erlendra Falun Gong liða til Íslands meðan á opinberri heimsókn Jiangs Zemins, forseta Kína, stæði hér á landi í júní 2002, vakti það reiði margra landsmanna, sem mótmæltu þessum aðgerðum harðlega í fjölmiðlum og tóku þátt í margvíslegum mótmælaaðgerðum á götum úti. Óhætt er að segja að fátt hafi reynst jafn umdeilt fram að því eins og þessi opinbera heimsókn forseta Kína og aðgerðir stjórnvalda í tengslum við hana.

Sjálfir neituðu talsmenn Falun Gong því iðulega í íslenskum fjölmiðlum að koma mörg hundruð fylgismanna til landsins í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kína hefði verið skipulögð fyrirfram og sögðu hvern og einn hafa ákveðið þetta upp á eigin spítur án nokkurs utan að komandi þrýstings. Jafnframt sögðu þeir málflutning kínverskra stjórnvalda gegn Falun Gong vera uppspuna frá rótum enda snerist hugmyndafræðin fyrst og fremst um fimm friðsamar líkamsæfingar til „að styrkja hug og hjarta mannsins með tilliti til grundvallarlögmála heimsins“, sem birtust í einkennisorðunum heiðarleiki, samúð og umburðarlyndi.[2] Allir neituðu talsmennirnir því að Falun Gong hefði eitthvað með trúarbrögð að gera og sumir gengu jafnvel svo langt að neita því að um ‚hreyfingu‘ (movement) væri að ræða enda skipulagið ekkert og sérhver á eigin vegum.

Deilurnar um málflutning talsmanna Falun Gong hreyfingarinnar og þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að koma í veg fyrir komu sem flestra fylgismanna hennar til landsins meðan á opinberri heimsókn forseta Kína stæði vöktu upp ýmsar mikilvægar spurningar, svo sem:

  • Hvernig ber að bregðast við erlendum þrýstihópum sem kunna að vilja nýta landið til að koma málstað sínum á framfæri og jafnvel hafa áhrif á aðgerðir stjórnvalda?
  • Með hvaða hætti ber að skipuleggja mótmælaaðgerðir?
  • Hversu langt má öryggisgæsla ganga í tengslum við opinberar heimsóknir?
  • Að hvaða marki getur eftirlit með trúarhópum eða öðrum félagasamtökum talist eðlilegt?
  • Er réttmætt að útiloka komu fólks frá tilteknum löndum tímabundið vegna þjóðernis þess og kynþáttar?

Enda þótt yfirleitt sé talað um Falun Gong í fjölmiðlum og daglegu tali eftir þeim líkamsæfingum sem fylgismennirnar ástunda reglulega bæði í einrúmi og á almannafæri að kínverskum sið, kjósa þeir sjálfir að kalla sjálfa hreyfinguna Falun Dafa.

Árið 1996 fluttist Li Hongzhi til Bandaríkjanna þar sem hann hefur dvalist síðan, en eftir að Falun Gong hreyfingin var bönnuð í Kína árið 1999 hafa kínversk stjórnvöld marg sinnis farið fram á að hann verði framseldur til þeirra. Jafnframt hafa fylgismenn hans í Kína sætt ofsóknum og þúsundir verið hnepptar í fangelsi eða sendar í þrælkunarbúðir, jafnvel án dóms og laga að sagt er. Kínversk stjórnvöld segja að þar sé þessu fólki hjálpað að ná tökum á lífinu á nýjan leik um leið og það losni úr fjötrum strangtrúarhópsins, en talsmenn Falun Gong hafa tínt til ótal dæmi um gróf mannréttindarbrot á föngunum á borð við pyntingar, nauðganir og jafnvel morð. Á einum vef Falun Gong er að finna ítarlegar upplýsingar um örlög fjölda kínverskra fylgismanna hreyfingarinnar sem látist hefur í höndum lögreglu og fangavarða.

Bæði Li Hongzhi og fylgismenn hans hafa haldið því fram að iðkendur Falun Gong séu orðnir fleiri en 100 milljónir um allan heim, þar af séu 80 milljónir í Kína. Þessu hafa kínversk stjórnvöld mótmælt og segja fylgismennina í mesta lagi um 2 milljónir. Fræðimenn, sem rannsakað hafa Falun Gong hreyfinguna, telja þessar tölur rangar, en algengt er að trúarhreyfingar, jafnt vestrænar sem austrænar, ýkji áhrif sín með tölulegum upplýsingum. Að sama skapi geta stjórnvöld, sem hafa horn í síðu tiltekinna trúarhreyfinga eins og Falun Gong í Kína, séð sér hag í því að gera sem minnst úr áhrifum þeirra. Trúarbragðafræðingar telja því að enda þótt mun færri iðki Falun Gong en hreyfingin hefur haldið fram, séu þeir samt töluvert fleiri en kínversk stjórnvöld gefa upp. Þannig telur t.d. trúarbragðafræðingurinn David Chappell 15 milljónir mun raunhæfari tölu um fjölda iðkenda Falun Gong um allan heim.[3] Aðrir trúarbragðafræðingar hafa bent á að til séu margar mun fjölmennari trúarhreyfingar í Kína sem byggi hugmyndafræði sína að sama skapi á qigong að einhverju leyti, svo sem Zhong Gong.[4]

Talsmenn Falun Gong hafa sumir hverjir neitað því að um hreyfingu sé að ræða þar sem skipulagið sé ekkert og iðkendurnir séu öðrum algjörlega óháðir. Þegar félagsfræðingarnir John Wong og William T. Liu rannsökuðu hins vegar hreyfinguna í Kína nokkru áður en kínversk stjórnvöld létu til skarar skríða gegn henni, sannfærðust þeir um að hún væri í raun þaulskipulögð, enda hefði hún á að skipa 39 kennslumiðstöðvum, 1900 upplýsingamiðstöðvum og 28.000 æfingastöðvum víðs vegar um landið.

Þegar kínversk stjórnvöld hertu tökin á ýmsum trúarhreyfingum snemma árs 1999, tóku iðkendur Falun Gong að safnast saman í þúsunda tali  fyrir utan höfuðstöðvar kommúnistaflokksins í Peking. Fjöldamótmælin skutu skelk í bringu ráðamanna sem höfðu ekki gert sér grein fyrir hversu mikið fylgi Falun Gong var orðið. Í júli var Falun Gong hreyfingin því bönnuð á þeirri forsendu að um hættulegan strangtrúarhóp væri að ræða sem ógnaði öryggi ríkisins og bæri sök á dauða fjölda manns. Fljótlega eftir að kínversk stjórnvöld bönnuðu Falun Gong árið 1999 virðist valdatogstreita hafa brotist út innan hreyfingarinnar þar í landi, en sumarið 2000 lýsti Hong Kong búinn Peng Shanshan því yfir að hann hefði tekið við sem andlegur leiðtogi hreyfingarinnar af Li Hongzhi. Virðist honum hafa tekist að afla sér fylgis meðal ýmissa iðkenda Falun Gong en fregnir hafa einnig borist af fleiri klofningshópum.[5]

Ljóst er að netið hefur átt hvað mestan þátt í að breiða út boðskap Lis Hongzhis, en fylgismennirnir hafa komið upp fjölmörgum vefsíðum til að kynna málstaðinn, afla nýrra iðkenda og koma á samskiptum milli þeirra. Sumar þessara vefsíðna eru staðbundnar og eingöngu ætlaðar tilteknum löndum, en aðrar varða alla heimsbyggðina. Tvær af mikilvægustu vefsíðunum eru www.falundafa.org og www.clearwisdom.net, en báðar teljast þær opinberar síður Falun Gong hreyfingarinnar og eru því á ábyrgð hennar. Á þeirri fyrrnefndu eru að finna sögulegar upplýsingar um hreyfinguna ásamt helstu ritum hennar og fréttatilkynningum alls staðar að úr heiminum. Sú síðarnefnda er helsti samskiptavettvangurinn fyrir iðkendur Falun Gong, en þar er einnig greint frá stöðu mála í Kína hverju sinni og birt allt það nýjasta frá Li Hongzhis, jafnt kenningar hans sem yfirlýsingar og tilkynningar.

Talsmenn Falun Gong hafa ítrekað neitað því bæði á Íslandi og úti í heimi að iðkun þeirra og hugmyndafræði hafi eitthvað með trúarbrögð að gera. Það er í samræmi við málflutning Lis Hongzhis, sem leggur áherslu á það í ritum sínum að iðkun Falun Gong geti ekki talist til neinna trúarbragða, enda hafi qigong aldrei verið hluti þeirra.

Eitt af því sem Falun Gong hreyfingin hefur verið gagnrýnd hvað harðast fyrir er neikvæð afstaða hennar til læknavísinda og lyfjaneyslu iðkenda. Talsmenn Falun Gong hafa samt ítrekað neitað því að þeir hafi eitthvað á móti læknavísindum og segja engum vera bannað að neyta lyfja. Sjálfur segir Li Hongzhi það vera lygi að mönnum sé bannað að neyta lyfja innan hreyfingarinnar.[6]

Vissulega er læknavísindunum ekki hafnað undir öllum kringumstæðum en rit hreyfingarinnar eru engu að síður neikvæð í garð þeirra og segja þau standa fornum kínverskum lækningum langt að baki. Li Hongzhi segir t.d. í ritinu Falun Gong að læknavísindin hafi ekki enn áttað sig á því að ástæðuna fyrir sjúkdómum sé að finna í karma hvers einstaklings en æfingar Falun Gong geti unnið bug á rót þeirra. Þeir sem öðlist nægilegan siðferðilegan styrk við iðkunina verði ekki framar sjúkir nema því aðeins að þeir þurfi skyndilega að greiða fyrir misgjörðir sínar úr þessu eða fyrri lífum en sjúkrahúsin eru þá oftast ófær um sjúkdómsgreiningu, enda ekki um raunverulega sjúkdóma að ræða heldur aðeins skammvinna prófraun á staðfestu viðkomandi einstaklings.

Trúarhugmyndir Falun Gong hreyfingarinnar hafi einfaldlega ekki samrýmst neikvæðri afstöðu kommúnistastjórnarinnar til trúarbragða. Sömuleiðis hefur verið stungið upp á þeirri skýringu að stjórnvöld hafi ákveðið að bæla niður hvers kyns vinsælar trúarhreyfingar af sögulegum ástæðum, enda hafi trúarlegar uppreisnir oftar en ekki velt valdhöfum þar úr stóli á liðnum öldum. Stjórnvöld séu því aðeins að tryggja eigin hag til öryggis. Kínversk stjórnvöld bregðist ávallt harkalega við öllum þeim hreyfingum, sem gætu mögulega átt eftir að ógna stöðu þeirra og því beri að líta á aðgerðirnar sem víti öðrum til varnaðar.

Flestar eiga þessar tilgátur það sameiginlegt að túlka harkalegar aðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn trúarhreyfingum á borð við Falun Gong sem valdatogsteitu þar sem allra meðala er beitt til að viðhalda völdunum í samfélaginu. Falun Gong hreyfingin segist vera ópólitísk þar sem hugmyndafræðin snúist alfarið um velferð einstaklingsins en samfélagið skipti litlu máli. Sjálfur leggur Li Hongzhi áherslu á það í ritum sínum að hreyfingin skuli vera ópólitísk. Aðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn Falun Gong hreyfingunni hefur þó gert það að verkum að fylgismennirnir hafa leitað til stjórnvalda víða um heim eftir stuðningi og skipulagt mótmælaaðgerðir víða um heim sem hafa pólitíska þýðingu. Enda þótt togstreitan milli Falun Gong hreyfingarinnar og kínverskra stjórnvalda varði að hluta til trúarhugmyndir hennar og afstöðu til læknavísinda, er það vafalaust fyrst og fremst fjöldahreyfingin sem þau vilja sporna við. Ef liðsmenn Falun Gong hefðu ekki efnt til fjöldamótmælanna fyrir framan höfuðstöðvar kommúnistaflokksins snemma árs 1999, er alls óvíst hvort hreyfingin hefði verið bönnuð, hvað þá komist í heimsfréttirnar.

Helstu heimildir

Önnur helstu fræðirit og vefsíður


[1] „Falun Gong.“ New Religious Movements.

[2] „Falun Gong er gott.“ DV. 15. Júní 2002. Bls. 24.

[3] Chappell, David: „Buddhism today.“ Buddhism. The Illustrated Guide. Ritstjóri: Kevin Trainor. Duncan Baird Publsihers. London. 2001. Bls. 228.

[4] Vitnað í Sima Nan hjá Apologetics Index. Bls. 5.

[5] Vitnað í Sima Nan hjá Apologetics Index. Bls. 8.

[6] FAII 11