Málstofa Trúarbragðafræðistofu: Hefndin og réttlæti Drottins

Málþing á vegum Trúarbragðafræðistofu Hugvísindasviðs Háskóla Íslands

Föstudaginn 19. febrúar kl. 13.20 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins

Hefndin á sér djúpar rætur í mannlífinu og félagslegt hlutverk hennar hefur verið áleitið viðfangsefni innan hinna ýmsu greina hug- og félagsvísinda.
Á málþinginu verður gerð grein fyrir því hvernig lögfræðin fjallar um hefndarréttinn og takmörkun á honum allt frá frumstæðum samfélögum til nútímans. Spurt er hvort enn megi finna leyfar hins forna hefndarréttar í íslenskri löggjöf og hvernig bregðast eigi við tilburðum til hefnda í nútímanum.

Það var mikilvægur áfangi í þróun samfélaga þegar hefndarskylda einstaklinga, fjölskyldna og þjóðflokka vék fyrir réttarkerfi þar sem framkvæmdavaldið sá um viðurlög við afbrotum. Undanfara þessarar nýbreytni má rekja til trúarbragða og þá ekki síst hugmynda um sáttmála við einn alvaldan Guð skapara himins og jarðar. Boðorðin og gildismat þeirra átti að tryggja frið og velsæld þjóðanna og hefur sáttmálinn þannig átt sinn þátt í því að móta réttarhugmyndir og lögbækur hins vestræna menningarheims.

Í fornum trúartextum birtast hugmyndir manna um réttlæti almáttugs Guðs og hvernig hann standi vörð um hagsmuni smælingja og þeirra sem ranglæti eru beittir. Boðun Jesú Krists byggir á lögmálinu og hefur boðskapur hans það markmið að fullkomna það á þeim forsendum að Guð sé kærleikur.

Guðstrú glímir við sístæðar spurningar á borð við af hverju saklausir þjást og hvers vegna óréttlæti viðgengst. Þrátt fyrir það að völd og áhrif trúarstofnana hafi farið þverrandi undanfarnar aldir og ýmis svið samfélagsins hafi þannig afhelgast að vissu marki má færa rök að því að réttarvitundin hvíli á fornum trúarlegum hugmyndum um samband manns og Guðs.
Þótt hugmyndir fólks um Guð kunni að vera á reiki er eins og enn sé spurt um reiði hins réttláta Guðs gagnvart misgjörðum annarra.

Dr. Jónas Elíasson prófessor setur þessar spurningar á oddinn en síðan fjalla fimm fræðimenn um þær út frá fræðigreinum sínum og leitast við að tengja viðfangsefið þeim tímum sem við nú lifum. Eftir hvern fyrirlestur sem tekur 20 mínútur verður rúm til fyrirspurna og eftir síðasta fyrirlesturinn verður stuttur tími til almennra umræðna.

Dagskrá

13.20-13.30: Ávarp málþingsstjóra: Dr. Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur.

13.30-14.00: Dr. Jónas Elíasson prófessor emeritus í verkfræði: “Hefnd og réttlæti Drottins. Hvað segja fræðin?”

14.00-14.30: Dr. Kristinn Ólason rektor Skálholtsskóla og
gamlatestamentisfræðingur: “Til að gæta réttar munaðarleysingja og ekkna.”
Um refsirétt, skaðabætur og sáttamiðlun í Kódex Hammúrabí og Biblíu kristinna manna.”

14.30-15.00: Dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor í gamlatestamentisfræðum:
“Lát heldur réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk.”
Um afstöðu svonefndra dómsspámanna Gamla testamentisins til réttar og réttlætis.”

Kaffihlé

15.15-15.45: Dr.Páll Sigurðsson prófessor í lögfræði: “Hefndir og hefndarréttur.”

15.45-16.15: Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir dósent í guðfræðilegri siðfræði:
“Hvað er refsing? Um markmið refsinga í sögu og samtíð?”

16.15-16.35: Dr. Pétur Pétursson prófessor í praktískri guðfræði: “Lýst er eftir reiðum og réttlátum Guði!”

16.35-17.00: Umræður

This entry was posted in Viðburðir. Bookmark the permalink.