Music and Nature 2011

Music and Nature – Alþjóðleg tónlistarfræðaráðstefna 2011

Alþjóðleg tónlistarfræðaráðstefna sem ber yfirskriftina Music and Nature verður haldin í Salnum í Kópavogi dagana 18. – 21. Maí 2011. Þetta  er í fyrsta sinn sem tónlistarfræðaráðstefna af þessari stærðargráðu er haldin hér á landi.

Tilurð ráðstefnunnar er sú að á síðastliðnu ári kom til landsins Prof. Dr. Annette Kreutziger-Herr til þess að halda fyrirlestur við Listaháskóla Íslands. Í framhaldi af honum kom fram hugmyndin að ráðstefnunni sem nú er haldin.  Samstarfsaðilar í þessu verkefni eru Tónlistarháskólinn í Köln, Tónlistarsafn Íslands og Íslensk tónverkamiðstöð. Auk þess er um samstarf við Listaháskóla Íslands að ræða, en nemendur hans í tónlistarfræðum munu geta nýtt sér ráðstefnuna í námi sínu.

Eins og yfirskriftin ber með sér verða tónlist og náttúra í forgrunni hjá fyrirlesurum ráðstefnunnar og samspili þeirra þátta skoðað frá ýmsum hliðum. Fyrirlesarar koma víða að og eiga það sammerkt að vera viðurkenndir fræðimenn. Ríflega tuttugu fyrirlestrar verða haldnir sem tengjast yfirskrift ráðstefnunnar með mismunandi hætti.

Ráðstefnan hefur vakið mikla athygli í hinu alþjóðlega fræðasamfélagi tónlistarfræða og er afar góð kynning fyrir land og þjóð í faggeira sem Ísland hefur fram að þessu staðið að nokkru leyti utan við. Það er mikið fagnaðarefni að geta boðið fagfólki og öllum áhugamönnum um fræðilega tónlistarumfjöllin til slíkrar hátíðar.

Ráðstefnan er haldin á ensku og er öllum opin án endurgjalds. Sækja má einstaka viðburði.

Sjá nánar á musicandnature2011.mic.is

Comments are closed.