Verkefnið

META-NORD er tveggja ára verkefni sem öll Norðurlönd og Eystrasaltslönd taka þátt í. Það hófst 1. febrúar 2011 og er hluti af stærra verkefni, META-NET, sem tekur til allra ríkja Evrópusambandsins og tengdra ríkja. Verkefnin eru styrkt af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins og stefnumótunaráætlun sambandsins á sviði upplýsingatækni (ICT Policy Support Programme).  Máltæknisetur tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands og er hlutur þess af styrknum um 202 þúsund evrur.

META-NET og útvíkkun þess, tengslanetið META (Multilingual Europe Technology Alliance), hafa það að markmiði að skapa tæknilegar forsendur fyrir margmála upplýsingasamfélagi í Evrópu þar sem allir geti notað móðurmál sitt við öflun og úrvinnslu hvers kyns upplýsinga. Þetta á að gera með því að efla máltækni fyrir allar þjóðtungur álfunnar og auðvelda tengsl milli þeirra með uppbyggingu margmála málfanga (language resources) sem nýst geti í margvíslegum máltækniverkefnum. Ekki er ætlunin að koma slíkum málföngum upp frá grunni, heldur ljúka við verk sem eru í vinnslu, staðla þau og gera aðgengileg í gagnabrunninum META-SHARE. Með því að greiða leið milli tungumála og auðvelda mönnum að nota móðurmál sitt í fjölþjóðlegum samskiptum má koma í veg fyrir að enskan þrengi sér smátt og smátt inn á fleiri svið á kostnað þjóðtungna en varðveita þess í stað margmála evrópskt samfélag.

Stuttar kynningar á META-NORD og META-NET á íslensku:

Lýsingar á verkefninu á ensku: