Kynning

Máltækni felst í samþættingu tungumáls og tölvutækni og sú samþætting hefur ýmsar hliðar. Þannig má nota tölvutæknina til að hjálpa okkur á ýmsan hátt við meðferð og beitingu tungumálsins. Þar má nefna hugbúnað sem leiðréttir stafsetningu og málfar, vélrænar þýðingar, rafrænar orðabækur, kennsluhugbúnað og ýmislegt fleira. Á hinn bóginn má einnig snúa þessu við og nota tungumálið til að auðvelda hagnýtingu og beislun tækninnar. Þannig færist í vöxt að mannlegt mál sé notað til að stjórna ýmsum tölvustýrðum tækjum, allt frá heimilistækjum til bíla.

Í ýmiss konar þjónustuverum og upplýsingaveitum erlendis er nú algengt að tölva tengd talgreini túlki fyrirspurn notanda, leiti svars við henni í gagnabanka, semji svar og komi því til notandans með aðstoð talgervils. Möguleikar máltækni til hjálpar fólki með ýmiss konar fötlun eru einnig gífurlegir. Blindir, sjónskertir og lesblindir hafa t.d. ómetanlegt gagn af talgervlum, og talgreining er himnasending fyrir hreyfihamlaða sem eiga erfitt með að nota hendurnar til að stjórna tækjum eða slá inn texta.

Þróun máltæknibúnaðar er mjög dýr og kostnaðurinn er óháður fjölda málnotenda. Því er skiljanlegt að máltækni hafi átt erfitt uppdráttar á Íslandi – smæð markaðarins gerir það að verkum að fyrirtæki sjá sér ekki hag í því að leggja í mikinn þróunarkostnað sem lítil von er um að ná til baka. Það hefur hins vegar sýnt sig, bæði hér á landi og erlendis, að þekkingu og skilningi á máltækni og möguleikum hennar er verulega ábótavant, bæði hjá almenningi, fyrirtækjum og opinberum aðilum.

Með vitundarvakningu á þessu sviði kæmu kröfur um íslenskan máltæknibúnað án efa frá fleiri hópum og yrðu bornar fram með meiri þunga. Þar með ykjust möguleikar á arðvænlegu þróunarstarfi á þessu sviði og jafnframt líkur á að íslensk fyrirtæki færu að sinna því. Það er enginn vafi á því að þörf íslenskra málnotenda og íslensks málsamfélags fyrir máltækni er jafnmikil og gerist í öðrum tæknivæddum nútímasamfélögum. Verði henni ekki mætt með íslenskum máltæknibúnaði eru líkur á að enskan ryðji sér til rúms á sífellt fleiri sviðum daglegs lífs. Þess vegna er lögð áhersla á það í íslenskri málstefnu sem Alþingi samþykkti vorið 2009 að mikilvægt sé að vinna að þróun íslensks máltæknibúnaðar.

Mikilvægur þáttur META-NORD felst í kynningu á máltækni og möguleikum hennar fyrir fyrirtækjum, stjórnvöldum og almenningi. Í þeim tilgangi hefur verið samin aðgerðaáætlun (action plan), bæði fyrir META-NORD svæðið í heild og einstök lönd þess, þ. á m. Ísland. Þessari áætlun var skilað til Evrópusambandsins í lok júlí. Hún verður svo endurskoðuð í lok verktímans, í ársbyrjun 2013.

Ætlunin er að hafa samband við forsvarsmenn fyrirtækja á sviði tölvu- og upplýsingatækni, opinberra stofnana og sjóða, ýmissa félagasamtaka o.fl. Þessi vefsíða verður notuð til að miðla margs konar upplýsingum, og einnig verða skrifaðar greinar í blöð og tímarit.

Starf samkvæmt áætluninni eru hafið fyrir nokkru. Kynningarbréf var sent til forsvarsmanna tæplega 90 fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka í apríl 2011. Einnig hafa fréttatilkynningar verið sendar til fjölmiðla vegna META-FORUM 2011 í lok júní og Evrópska tungumáladagsins 2011 í lok september. Þá hefur verið skrifuð grein um verkefnið í Hugrás, vefrit Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.