Af þessu tilefni boðar Menntavísindasvið til fimm opinna funda á næstu vikum, sjá meðfylgjandi dagskrá. Tilgangur fundanna er í fyrsta lagi að gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt í umræðu um kennaramenntun og í öðru lagi að kynna þær áætlanir um námsskipan sem Menntavísindasvið vinnur að um þessar mundir.
Umræða um og endurskoðun á kennaramenntun hér á landi er í takt við það sem gerist annars staðar, s.s. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þar sem fram fer grundvallarendurskoðun á menntun kennara. Mikið er rætt um kennaramenntun á samnorrænum vettvangi en einnig í fjölmörgum Evrópulöndum utan Norðurlandanna og víða um heim. Álitaefnin eru mörg og tekist er á um inntak kennaramenntunar en rannsóknir staðfesta að kunnátta kennara skiptir sköpum um árangursríkt skólastarf.
Á hverjum fundi verða stutt framsöguerindi og síðan opnar umræður. Samantekt úr umræðum verður kynnt á síðasta fundi. Verður hún höfð til hliðsjónar við áframhaldandi vinnu við skipulag kennaranáms við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Fundirnir eru öllum opnir.