URL – vefslóð

Vefslóð (e. a uniform resource locator) getur leitt lesanda beint að efni þar sem það er að finna á internetinu. Þetta er þó háð því að efnið færist ekki til því vefslóð tengist ekki efninu sjálfu heldur gefur til kynna staðsetningu þess. Með öðrum orðum: Vefslóð er ekki varanleg tenging við ákveðið efni því efni getur flust til eða horfið alveg af netinu.


Vefslóð birtist í slóðarstiku (e. address bar) efst í netvafra.

Vefslóð þar sem er að finna greinina „Before Democracy: The Production and Uses of Common Sense,“ eftir Sophiu Rosenfeld sem birtist í tímaritinu the Journal of Modern History er http://www.jstor.org/discover/10.1086/529076?uid=3738288&uid=2&uid=4&sid=21104304233373


Segja má að munurinn á vefslóð og DOI-númeri felist í því að vefslóð tengist ákveðinni staðsetningu á netinu en DOI-númer tengist hins vegar efninu sjálfu. Ef efni hefur verið flutt til finnst það ekki með því að nota vefslóð en finnst ef notað er DOI-númer.

DOI-númer eru því áreiðanlegri og varanlegri en vefslóðir og Chicago-staðall mælir með því að rafrænar heimildir séu auðkenndar með DOI-númeri í heimildaskrá frekar en vefslóð, sé þess kostur.