DOI – rafrænt auðkenni

DOI-númer (e. digital object identifier) er endanlegt auðkenni rafræns efnis, svo sem tímaritsgreina og bóka, og fylgir efninu alls staðar þar sem það birtist. DOI-númer samanstendur af tveimur hlutum sem aðgreindir eru með skástriki. Fyrri hluti númersins segir til um útgefanda og seinni hlutinn skilgreinir einstaka grein í ákveðnu tímariti. Framan við DOI-númer er skráð http://dx.doi.org/ og þannig verður til varanlegur tengill fyrir greinina.


Varanlegur tengill greinarinnar „Before Democracy: The Production and Uses of Common Sense, “ eftir Sophiu Rosenfeld sem birtist í tímaritinu The Journal of Modern History er http://dx.doi.org/10.1086/529076

DOI-númer sömu greinar er 10.1086/529076

DOI-mynd
Með því að slá inn eða afrita DOI-númerið í leitarglugga á vefsíðunnar Crossref.org eða í leitarvél sem styður við DOI-númer er hægt að finna slóð (URL) þar sem greinina er að finna. Önnur leið til að finna greinina er að setja allan tengilinn inn í leitargluggann á netvafranum.

Oftast er auðvelt að finna DOI-númer á forsíðum rafrænna greina. Hægt er að kanna hvort grein hafi DOI-númer með því að slá höfund og titil hennar inn í viðeigandi leitarglugga hér http://www.crossref.org/guestquery/.


Í heimildaskrá er æskilegra að skrá DOI-númer en vefslóð ef efnið hefur fengið úthlutað slíku númeri. DOI-númer eru áreiðanlegri en vefslóðir því þau eru varanleg og fylgja efni þótt það færist til á vefnum. Flestar nýlegar ritrýndar greinar sem koma út á rafrænu formi hafa DOI-númer. Enn er þó talsvert gefið út af rafrænu efni sem ekki hefur DOI-númer. Þá er  er skráð vefslóð eða URL til að auðvelda lesanda að finna efnið. Íslenskt efni hefur almennt ekki DOI-númer.