Rafrænar heimildir

Samfara aukinni upplýsinga- og tölvutækni er nú meira af efni aðgengilegt á rafrænu formi en áður. Sumt efni sem birtist á netinu er ekki formlega útgefið og ekki er getið sérstaklega um útgefanda eða ábyrgðaraðila. Höfundar þurfa þó að vera vakandi fyrir því að allt sem birtist á internetinu er „komið út“ í þeim skilningi að reglur um höfundarrétt eru þær sömu og um efni sem kemur út á prenti. Þetta á líka við þegar ekki er um formlega útgáfu að ræða. Það er því jafn mikilvægt að vísa til og skrá rafrænar heimildir líkt og prentaðar.


Aðgreining rafrænna og prentaðra heimilda

Stundum kemur efni út bæði rafrænt og á prenti. Það getur verið munur á rafrænni og prentaðri útgáfu hvort sem það er vísvitandi eða fyrir mistök. Höfundar eru því hvattir til að gera grein fyrir því í heimildaskráningu, hvora útgáfuna þeir nota.

Samkvæmt Chicago-staðli er mælt með því að þetta sé gert með því að bæta rafrænu auðkenni (DOI) eða vefslóð (URL) við, aftast í skráningu heimildar. Æskilegt er að DOI-númer sé notað hafi efninu verið úthlutað slíku númeri. Fyrir aðrar óprentaðar heimildir ætti að taka fram um hvers konar miðil ræðir (t.d. geisladiskur).

Ólík form rafrænna heimilda, svo sem PDF- eða HTML-form sömu greinar, felur ekki í sér að um ólíka heimild sé að ræða. Slóðin er líklega ekki sú sama en DOI-númerið breytist ekki þar sem því er ætlað að vísa lesanda á alla þá staði þar sem efnið birtist rafrænt. Ef prentuð útgáfa efnis er notuð og DOI-númer kemur fram á henni þarf ekki að skrá það nema útgefendur, fræðasvið eða kennarar krefjist þess sérstaklega.


Hvenær efni var sótt

Samkvæmt Chicago-staðli þarf ekki að skrá sérstaklega hvenær heimildir á netinu voru sóttar eða skoðaðar. Sumir útgefendur, fræðasvið og kennarar gera þó kröfu um að þær upplýsingar komi fram og því eru þær almennt hafðar með í dæmum sem sýnd eru í þessum leiðbeiningum. Nemendur og öðrum höfundum er bent á að leita ráða hjá kennurum, útgefendum eða þeim sem við á hverju sinni.


DOI – rafrænt auðkenni
URL – vefslóð