Neðanmálsgreinakerfi Chicago-staðals

Í neðanmálsgreinakerfi Chicago-staðalsins eru tilvísanir í heimildir skráðar í neðanmálsgreinum, helst með heimildaskrá í lokin. Tilvitnanir eru merktar og tölusettar í lesmáli í samræmi við tilvísanir. Ef heimildaskrá fylgir koma þar fram allar upplýsingar um heimildina og því nóg að skrá stuttar tilvísanir neðanmáls. Ef heimildaskrá fylgir ekki þarf hins vegar að skrá allar upplýsingar um heimildina í langri tilvísun í fyrsta sinn sem vísað er til hennar, eftir það er nóg að skrá stuttar tilvísanir.

Hér eru nánari útskýringar á löngum og stuttum tilvísunum.


Íslensk aðlögun

Þessar leiðbeiningar um neðanmálsgreinakerfi Chicago eru byggðar á 16. útgáfu The Chicago Manual of Style og The Chicago Manual of Style Online.

Ýmis fræðasvið hafa tekið upp notkun neðanmálsgreinakerfis Chicago. Þetta á til dæmis við um bókmenntir, sagnfræði og listgreinar. Reglurnar miðast mjög eindregið við bandarískt samfélag og enska stafsetningu og málnotkun. Leiðbeiningarnar á þessum vef eru staðfærðar að íslenskum þörfum.

Við aðlögun neðanmálsgreinakerfis Chicago-staðalsins að íslenskum venjum og þörfum komu upp ýmis álitamál. Stundum var ekki hægt að fylgja staðlinum að öllu leyti og taka þurfti afstöðu í mörgum málum. Glöggir lesendur munu því vafalítið rekast á frávik frá því sem þeir eru vanir.

Vakin skal athygli á því að þótt hér séu settar fram ýmsar reglur varðandi meðferð og skráningu heimilda er ávallt um einhver álitamál að ræða. Nemendur eru hvattir til að spyrja kennara sína hafi þeir einhverjar spurningar og kennarar sömuleiðis hvattir til að láta nemendur vita ef þeir vilja víkja frá leiðbeiningunum að einhverju leyti.