Frágangur

Nemendur eru hvattir til að fara að fyrirmælum kennara um útlit og frágang ritgerða. Hér að neðan eru ábendingar um frágang sem ættu að geta nýst flestum háskólanemum.

Athugið að lokaverkefni við Háskóla Íslands þarf að setja upp samkvæmt ákveðnu sniðmáti.

Forsíða ritgerðar

Á forsíðu kemur alla jafna fram titill ritsmíðar og undirtitill ef við á. Auk þess:

  • skóli
  • fræðasvið
  • deild
  • námsgrein
  • námskeið og námskeiðsnúmer
  • nafn nemanda, notendanafn og/eða kennitala

Ef forsíða er myndskreytt skal myndin vera í samræmi við efni ritgerðarinnar.

Efnisyfirlit

Efnisyfirlit kemur á eftir forsíðu. Ef formáli er að ritgerðinni er hann jafnan á undan efnisyfirliti. Í langflestum ritvinnsluforritum er hægt að búa til efnisyfirlit með einföldum hætti sem hægt er að uppfæra eftir því sem ritgerðin breytist.

Efnisgreinar

Efnisgreinar eru afmarkaðar með inndrætti eða auknu línubili. Varist að hafa efnisgreinar of stuttar. Ef efnisgrein er aðeins ein málsgrein má hugsanlega fella hana undir næstu efnisgrein á undan eða eftir.

Málsgrein

Málsgrein endar á punkti, spurningarmerki eða upphrópunarmerki. Málsgrein sem er margar línur hefur oftast að geyma fleiri en eina aðalsetningu og nokkrar aukasetningar. Oft er gott að brjóta langar málsgreinar upp með punkti eða stytta þær á annan hátt því langar málsgreinar eru yfirleitt torskildar.

KafLAFYRIRSAGNIR

Kaflafyrirsagnir eru allar með sama letri og yfirleitt sama letri og meginmál. Letur kaflafyrirsagna er þó stærra en letur meginmáls. Ef meginmál er t.d. með 12 punkta letri er gott að hafa kaflafyrirsagnir með 14–16 punkta letri.

Leturgerð MEGINMÁLS

Gætið þess að nota einfalt og læsilegt letur. Times New Roman, Cambria, Calibri og Arial eru meðal vinsælustu leturgerða í ritgerðum.

Leturstærð

Vinsælt er að nota 12 punkta letur í ritgerðum og 1 1/2 – 2 línubil. Ef neðanmálsgreinar eða aftanmálsgreinar eru notaðar eru þær oft hafðar með letri sem er einum punkti minni en meginmálið eða með minna línubili.

 

Síðast uppfært 14/01/2014

Share