Heilræði

Nokkur heilræði vegna lokaritgerða

Leiðbeinandi
Fyrsta skrefið er að finna leiðbeinanda og viðfangsefni. Veljið leiðbeinanda sem þið þekkið og treystið og veljið viðfangsefnið í samráði við hann. Reynið að koma á reglulegum fundum með leiðbeinandanum meðan þið eruð að skrifa ritgerðina.

Efnisafmörkun
Reynið að afmarka viðfangsefnið strax í upphafi og þá helst með einni eða fleiri rannsóknarspurningum. Ritgerðin á að svara rannsóknarspurningunni á skýran og greinargóðan hátt. Segið lesandanum það sem hann þarf að vita til að skilja og meta það sem stendur í ritgerðinni (en ekki segja honum allt það sem þið vitið um efnið).

Efnisgrind
Búið til efnisgrind fyrir ritgerðina eins fljótt og hægt er en hún á að sýna hvernig ritgerðin skiptist í kafla og undirkafla. Við samningu efnisgrindar geta komið upp ýmis álitamál sem ekki er auðvelt að ráða fram úr. Þá er gott ráð að velja fljótlega eina leið og halda sig við hana þangað til þið sjáið ástæðu til að breyta. Það er alltaf hægt að endurskoða efnisgrindina ef þörf krefur.

Lesandinn
Í fræðilegum ritgerðum er mjög mikilvægt að rökstyðja allar þær skoðanir sem þar koma fram, t.d. með röksemdafærslu eða heimildatilvitnunum, og sýna dæmi þar sem þess er þörf. Þetta er nauðsynlegt, ekki síst vegna þess að lesandinn hefur ekki endilega sömu þekkingu, reynslu og skoðanir og þið en ritgerðin skal skrifuð með það í huga að hún sé aðgengileg fyrir samnemendur ykkar.

Heimildir
Sigtið út nokkrar lykilheimildir sem þið lesið vel og vandlega. Það mun hjálpa ykkur við að lesa allar hinar heimildirnar sem þið þurfið að lesa. Munið eftir Google Scholar sem er sérhæfð leitarsíða fyrir ritrýnt fræðiefni og öllum fróðleiknum sem hægt er að finna á timarit.is.

Tilvitnanir
Farið rétt með beinar tilvitnanir en notið frekar óbeinar tilvitnanir. Beinar (orðréttar) tilvitnanir eiga rétt á sér þegar það er eitthvað mikilvægt í orðalagi textans sem myndi tapast í endursögn. Of mikil notkun beinna tilvitnana vekur hins vegar spurningar um sjálfstæði ykkar gagnvart heimildunum sem þið eruð að nota. Í óbeinni tilvitnun felst að þið endursegið textann með því að nota ykkar eigin orðalag. Það er því ekki nóg að hnika til orði og orði í heimildinni sem vitnað er í.

Heimur fræðanna
Viðfangsefni allra lokaritgerða á að setja í fræðilegt samhengi. Í því felst að þið eigið að vitna í fyrri rannsóknir sem tengjast ykkar eigin rannsókn og máta niðurstöður ykkar við viðurkenndar fræðikenningar. Gott er að byrja á því að lesa aðgengilegt efni um tilteknar fræðikenningar, t.d. í kennslubókum, áður en lengra er haldið. (Athugið samt að kennslubækur eru yfirleitt ekki nothæfar sem fræðilegar heimildir til að vísa í því þær birta sjaldan einhverja nýja þekkingu.)

Skrif og endurskrif
Byrjið fljótt á því að skrifa texta ritgerðarinnar og gerið það samhliða lestri heimilda. Það hjálpar ykkur að sjá hvar þið standið gagnvart viðfangsefninu og hvað þið þurfið að kynna ykkur betur eða hugsa meira um. Þið þurfið alveg örugglega að endurskrifa textann síðar en það  gerir ekkert til því endurskrif eru eðlilegur hluti af allri ritun.

Ritverið
Munið eftir námskeiðum og viðtalsfundum ritversins. Í ritverinu getið þið fengið einstaklingsbundna ráðgjöf um lokaritgerðir sem sniðin er að ykkar þörfum og óskum. Við hjálpum ykkur líka með ýmis tæknileg atriði (á 30. mín. viðtalsfundum) en reynið samt að hafa ekki of miklar áhyggjur af þeim.

Að lokum
Það er vissulega erfitt að skrifa góða lokaritgerð en þið megið samt ekki mikla þetta fyrir ykkur. Hugsið um ritgerðina sem marga áfanga á löngu ferðalagi og einbeitið ykkur að einum áfanga í einu. Áður en þið vitið af verður öllum þessum áföngum lokið og þið getið skilað ritgerðinni.

Síðast uppfært: 21/01/2015

Share

Leave a Reply