Heimildir

Orðabók

Segja má að öll verkefni sem unnin eru í háskóla séu byggð á heimildum en heimildir eru efni og/eða hugmyndir sem höfundur hefur einhvern tíma lesið, heyrt eða séð. Í háskólanámi er algengt að nemendur skrifi ritgerðir sem byggjast á því að þeir safni og vinni úr upplýsingum um ákveðið efni. Slíkar ritgerðir eru oft kallaðar heimildaritgerðir eða rannsóknarritgerðir.

Ritgerðir eiga helst að byggjast á einni meginspurningu, svonefndri rannsóknarspurningu, og markmið ritgerðarinnar er að svara henni. Til að gera það þarf nemandinn að afla sér heimilda, kynna sér heimildirnar, velja úr þeim og leggja mat á þær ásamt því að túlka þær og fella að eigin texta þannig að ritgerðin myndi eina samhangandi heild. Hann þarf líka að gæta þess að skrá heimildirnar, bæði í heimildatilvísunum og heimildaskrá, svo ljóst sé hvaðan hugmyndirnar og efnið kemur.

Frumheimildir og eftirheimildir
Nauðsynlegt er að gera greinarmun á frumheimildum og eftirheimildum. Mælt er með notkun frumheimilda ef þess er nokkur kostur.

Heimildamat
Sá sem skrifar ritgerð þarf ekki aðeins að afla sér heimilda heldur einnig að leggja mat á þær. Hvaða heimildir eru áreiðanlegar og hverjar eru það ekki? Hvaða heimildir er best að nota hverju sinni?

Netheimildir
Á netinu eru óteljandi vefsíður og aragrúi upplýsinga. Sumir vefir eru góðir og áreiðanlegir, aðrir ekki. Því er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað er góð netheimild og hvað ekki.

Heimildaskráning
Heimildaskráning felst í því að skrá eftir tilteknum reglum þær heimildir sem notaðar eru og vísað er til í ritsmíð. Tilvísanir eru í meginmálinu sjálfu en full skráning hverrar heimildar er í heimildaskrá sem yfirleitt er aftast.

Share