Evrópski tungumáladagurinn

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, STÍL, Samtök tungumálakennara á Íslandi og  mennta- og menningarmálaráðuneytið efna til dagskrár í Hátíðarsal Háskóla Íslands á Evrópska tungumáladeginum, mánudaginn 26. september nk. kl. 16:00. Dagskráin er haldin í samvinnu við samtökin AUS, AFS og Móðurmál.

Við þetta tækifæri verður Evrópumerkið afhent, en það er viðurkenning fyrir nýbreytni og árangur í tungumálakennslu.


Dagskrá í Hátíðarsal Háskóla Íslands
16:00, 26. september 2011

  1. Dagskráin opnuð – Auður Hauksdóttir forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
  2. Afhending Evrópumerkisins, Jórunn Tómasdóttir formaður dómnefndar gerir grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar. Fulltrúi ráðuneytisins afhendir verðlaunin.
  3. Cinzia Fjóla Fiorini formaður samtakanna Móðurmáls lýsir fjölbreyttum aðferðum við að kenna börnum móðurmál sitt utan heimalandsins.
  4. Kór Kársnessskóla syngur nokkur lög á íslensku og erlendum tungumálum undir stjórn Þórunnar Björnsdóttir kórstjóra.
  5. Ragnheiður Jónsdóttir formaður STÍL fjallar um ungmennaskipti og tungumálanám.
  6. Fulltrúar frá AUS, Alþjóðlegum ungmennaskiptum og skiptinemasamtökunum AFS segja frá reynslu sinni af því læra tungumál með því að dvelja erlendis. Annars  vegar er um að ræða tungumál sem þau höfðu lært í íslenskum skólum og hins vegar önnur mál.
  7. Kristín M. Jóhannsdóttir málfræðingur segir frá META-NET, verkefni um margmála máltækni, og þýðingu þess fyrir íslensku.
  8. Erlendir stúdentar við Háskóla Íslands flytja ljóð á móðurmáli sínu.

Boðið verður upp á kaffiveitingar að lokinni dagskrá.

Kynning á IcePaHC

Undanfarið hefur verið unnið að IcePaHC (Icelandic Parsed Historical Corpus), setningafræðilega greindum textabanka (trjábanka) frá öllum öldum íslenskrar ritaldar. Þessu verki er nú lokið – búið er að greina eina milljón orða, u.þ.b. 100 þúsund frá hverri öld. Þar með er þetta orðið einn stærsti banki sinnar tegundar í heiminum. Bankinn verður ómetanlegt hjálpartæki við rannsóknir á íslensku máli og þróun þess. Greiningarskemað er sniðið að því skema sem er notað í sögulegum enskum textabönkum (Penn Parsed Corpora of Historical English) sem auðveldar margs konar forvitnilegan samanburð við þróun enskunnar, auk þess sem unnið er að greiningu fleiri tungumála með hliðstæðu skema.

Bankinn hefur verið unninn fyrir styrki frá Rannsóknasjóði, National Science Foundation í Bandaríkjunum og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Hann er gefinn út með LGPL-leyfi (lesser generalized public license) sem táknar að hann er öllum opinn og aðgengilegur til hvers konar nota, án greiðslu. Hægt er að sækja hann í heild, ásamt viðeigandi leitarhugbúnaði.

Í tilefni verkloka við smíði textabankans verður útgáfuhátíð hans haldin miðvikudaginn 24. ágúst kl. 16:00 í stofu 201 í Árnagarði. Þar munu höfundar bankans, Joel Wallenberg, Anton Karl Ingason, Einar Freyr Sigurðsson og Eiríkur Rögnvaldsson, segja frá vinnunni við gerð bankans og sýna dæmi um gagnsemi hans. Kynningin er öllum opin.

Aðgerðaáætlun tilbúin

Einn helsti verkþátturinn í META-NORD felst í kynningu á máltækni og möguleikum hennar fyrir stjórnvöldum, fyrirtækjum og ekki síst almenningi. Í þeim tilgangi hefur verið samin aðgerðaáætlun (action plan), bæði fyrir META-NORD svæðið í heild og einstök lönd þess. Þessari áætlun var skilað til Evrópusambandsins í lok júlí. Hún verður svo endurskoðuð í lok verktímans, í ársbyrjun 2013.

Unnið að talgervingu og talgreiningu

Tvö íslensk máltækniverkefni á sviði talmáls eru nú að komast á skrið.  Annað er talgervlaverkefni Blindrafélagsins sem hefur verið í undirbúningi síðan í fyrra. Samið hefur verið við pólska fyrirtækið IVONA um smíði talgervilsins. Upptökur tveggja radda fara fram í ágúst og frumgerð talgervilsins á að vera tilbúin í haust.

Hitt verkefnið er íslensk talgreining sem Google stendur fyrir í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og Máltæknisetur. Ætlunin er að taka upp lestur 200 málhafa á 500 yrðingum. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni Almannarómur.

Málskýrslur aðgengilegar á netinu

Málskýrslur (Language whitepapers) um 29 Evrópumál sem META-NET hefur látið gera á undanförnum mánuðum eru nú aðgengilegar á netinu. Í skýrslunum er fjallað almennt um sérkenni hvers máls, stöðu þess í samfélaginu, málstefnu og málrækt, nýjungar í málinu, þátt þess í menntakerfinu, o.fl.

Megintilgangur skýrslnanna er þó að gera grein fyrir þeim máltæknibúnaði sem til er fyrir hvert mál, og greina styrkleika hans og veikleika. Skýrslurnar eru allar á ensku, en þær verða síðan þýddar á viðkomandi mál. Nú er unnið að þýðingu íslensku skýrslunnar og verður hún tilbúin á næstu vikum.

META-FORUM að hefjast

META-FORUM ráðstefnan í Búdapest hefst í dag, mánudaginn 27. júní, og lýkur á morgun. Gefin hefur verið út fréttatilkynning um ráðstefnuna á fjölmörgum málum, þar á meðal íslensku.

Íslenskar síður á META-NET opnaðar

Nú hefur íslensk þýðing nokkurra síðna á META-NET-vefnum verið opnuð. Þetta eru eftirtaldar síður:

META

META-NET

META-VISION

META-SHARE

META-RESEARCH

Málskýrslur gefnar út

Nú er verið að prenta málskýrslurnar sem hafa verið skrifaðar fyrir öll tungumál innan META-NET. Skýrslunum verður dreift á META-FORUM í Búdapest 27.-28. júní. Krækja í skýrslurnar verður sett hér inn um leið og þær eru tilbúnar.

Skráning á META-FORUM stendur yfir

Skráning á META-FORUM sem fer fram í Búdapest dagana 27. og 28. júní stendur nú yfir. Þar er mjög fjölbreytt dagskrá þar sem fjallað verður um máltækni frá ýmsum hliðum. Ræðumenn eru frá háskólum, rannsóknastofnunum, stjórnvöldum og fyrirtækjum. Allir áhugamenn um máltækni eru hvattir til að sækja ráðstefnuna. Hægt er að skrá sig á netinu fram til 18. júní.

Vefur META-NORD á Íslandi opnaður

Vefur íslenska hluta META-NORD hefur verið opnaður á slóðinni http://vefir.hi.is/metanord. Hlutverk hans er að kynna verkefnið og gera grein fyrir framvindu þess. Á næstunni verður einnig tilbúin íslensk þýðing á ýmsum síðum á vef META-NET.