Máltækni á degi íslenskrar tungu

Tveir merkisviðburðir á sviði máltækni verða í dag, degi íslenskrar tungu. Annars vegar mun frú Vigdís Finnbogadóttir kynna nýjar íslenskar talgervlaraddir fyrir Blindrafélagið og hins vegar kynnir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum nýja veforðabók, ISLEX.

Dóra og Karl
Á degi íslenskrar tungu, miðvikudaginn sextánda nóvember næst komandi, klukkan tvö, mun verða kynning á mikilvægum áfanga í talgervlaverkefni Blindrafélagsins. Enn þá mun verða kynnt fyrsta prufuútgáfan af nýju íslensku talgervlaröddunum: Karli og Dóru, sem pólska fyrirtækið Ivona er að smíða. Kynningin fer fram í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17. Frú Vigdís Finnbogadóttir, sem er verndari verkefnisins, mun setja spilun á röddunum af stað. Hér má heyra í Dóru og hér í Karli. Sjá einnig frekari upplýsingar á vef Blindrafélagsins.

ISLEX
Þann 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, fer fram ráðstefna í tengslum við opnun íslensku-skandinavísku veforðabókarinnar ISLEX. Þar taka til máls Guðrún Kvaran, Þórdís Úlfarsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Nina Martola, Bodil Aurstad, Eiríkur Rögnvaldsson og Ann Sandelin. Áður en stutt hlé verður gert á samkomunni fara fram pallborðsumræður. Dagskrá hefst svo að nýju klukkan fjögur þegar orðabókin verður opnuð formlega. Dagskráin fer fram á ýmsum Norðurlandamálum. Í lok dags verður boðið upp á léttar veitingar og þjóðlega tóna. Allir eru velkomnir. Sjá nánar hér.

Comments are closed.